Höfundur

Hrafnkell Birgisson
Hrafnkell Birgisson
Höfundur er vöruhönnuður, starfandi í Danmörku og á Íslandi.

Eldri færslur

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Meiri verðmæti úr minna hráefni

MIKILVÆGT er að viðhalda þekkingu í íslensku samfélagi sem lýtur að sem mestu efnahagslegu sjálfstæði og fjölbreyttu atvinnulífi. Það sem aðgreinir íslenskt samfélag frá flestum öðrum þróuðum ríkjum er að við höfum að miklu leyti tapað þeim hæfileika að þróa og framleiða sjálf það sem okkur skortir úr því sem við höfum eða getum aflað okkur á einfaldan hátt. Margt hefur breyst, kjör fólks vænkast en samfélagið er fyrir vikið orðið miklu dýrara í rekstri og viðskiptahallinn hefur aldrei verið jafn mikill.

Efnahagsleg sjálfbærni skapast með innlendri framleiðslu og sem mestri vinnslu á hráefni og frumafurðum. Þetta kallar á vöruþróun og vinnuferli sem geta af sér virðisauka og fjölbreyttara atvinnulíf. Íslendingar eiga að einsetja sér það að viðhalda sjálfstæði sínu og sérstöðu með fjölbreytni og skapandi starfsemi. Sjálfbært efnahagslíf þjóða í framtíðinni byggist á því að verðmæti séu sköpuð með sem minnstum áhrifum á umhverfið og á sem hagkvæmastan hátt fyrir samfélagið í heild. Grunnurinn í alþjóðlegum viðskiptum á að byggja á sjálfstæði, sanngirni, fyrirhyggju og samábyrgð gagnvart umhverfinu og komandi kynslóðum. Það á að vera markmið í virðisaukandi vinnuferlum að skapa sem mest verðmæti úr sem minnstu hráefni. Mikilvægur er virðisaukinn sem skapast í samfélaginu en ekki gjaldeyristekjurnar einar og sér.

Möguleikarnir á upprunatengdri framleiðslu hérlendis hafa aldrei verið jafn miklir. Kröfuhörðum neytendum fer fjölgandi um allan heim, neytendum sem eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir sérstæða, vandaða vöru úr sjálfbærri framleiðslu frá Íslandi. Umræðan um þjóðmálin hefur síðustu ár hins vegar einkennst af umdeildum áherslum í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Margir telja að þær áherslur sem urðu fyrir valinu hafi, í stað þess að stuðla að meiri fjölbreytni, komið bæði beint og óbeint niður á annarri atvinnuuppbyggingu þar sem meiri verðmætasköpun á sér stað.

Framleiðsla á áli eins og hún er stunduð hér á landi og víðast hvar annars staðar í heiminum er fremur einsleit frumvinnsla sem sjaldan getur talist sjálfbær né upprunatengd nema úr álinu séu framleiddar þróaðar vörur á staðnum. Ál er ál, hvaðan sem það kemur, og heimsmarkaðsverð liggur fyrir. Flutt er til landsins súrál til framleiðslu á hrááli sem er svo flutt úr landi óunnið. Verðmæti skapast við þetta ferli en þau gætu verið margfalt meiri.

Hvers vegna eru ekki þróaðar fjölbreyttar vörur úr áli og framleiddar hér á landi? Vörur úr framleiðslu eins álvers gætu skapað fjölbreyttari störf og útflutningsverðmæti á við núverandi framleiðsluverðmæti margra álvera. Hugsanlega mætti upprunatengja álið og auglýsa vörurnar úr "vistvænu" áli, framleiddu úr sjálfbærri varmaorku. Getur verið að framleiðendurnir sjálfir sjái sér engan hag að því að frekari vinnsla á áli fari fram hérlendis? Margir hafa nefnt skort á hráefni sem rök gegn því að á Íslandi geti þrifist fjölbreytt framleiðsla og útflutningur á þróuðum vörum!

Finnska fyrirtækið Fiskars, sem flestir þekkja í dag sem framleiðanda á skærum, eldhús- og garðáhöldum, var stofnað í samnefndu þorpi á suðurströnd Finnlands fyrir tæplega 400 árum. Fyrirtækið fékk upphaflega leyfi til að steypa og smíða gripi úr járni að undanskildum hergögnum. Eftir að nýir eigendur tóku við árið 1822 hófst framleiðsla á smærri og fíngerðari hlutum, m.a. hnífapörum og skærum. Fyrirtækið lagði áherslu á fjölbreytta framleiðslu og að byggja upp fjölbreytt samfélag á svæðinu, m.a. skóla, sjúkrahús og ýmsa menningartengda þjónustu. Víðáttumiklir skógar og óbeisluð vatnsorka voru náttúruauðlindir sem gerðu Fiskars að fullkomnum stað til að skapa verðmæti úr járni. Árið 2006 var heildarsöluverðmæti framleiðslu Fiskars um 47 milljarðar íslenskra króna. Fiskars á þar að auki annað fyrirtæki sem framleiðir m.a. búnað fyrir varmaorkuver og veltir fjórum sinnum meiri fjármunum á ári eða sem svarar áætluðu heildarútflutningsverðmæti íslenska þjóðarbúsins árið 2007.

Velgengni margra hátæknifyrirtækja byggist á skapandi samstarfi við hönnuði. Í Finnlandi er slíkt samstarf álitið þjóðarauður sem viðheldur samkeppnishæfni og velgengni í alþjóðlegum viðskiptum.

Nýsköpun í samkeppnisumhverfi t.d. í hátækni byggist á gæðum, sérstöðu og ímynd þess sem gert er en þar skipar hönnun stóran sess. Sérstaða vekur athygli, og eykur samkeppnishæfni, fjölbreytni og verðmæti. Sérstaða myndast af samspili ólíkra þátta og getur falist í smáatriðum sem aðgreina tvo annars mjög líka hluti að sjá. Hönnuðir flétta tækninýjungar, hráefni og notagildi saman og móta hlutum og mannvirkjum sérstöðu og menningarlegt vægi. Þegar vörumerki festir sig í sessi skapast grunnverðmæti sem hægt er að byggja á með frekari uppbyggingu, vöruþróun og þjónustu.

Mikilvægt er að upplýsa fyrirtæki um þann sjálfsagða þátt að skapa sér ímynd með hönnun. Í aðkomu hönnuða felast miklir möguleikar sem nýtast þeim sérstaklega sem vilja skapa framleiðslu og þjónustu sinni sérstöðu og aukin verðmæti. Það framkallar einnig fjölbreytt og varanleg störf.

Höfundur er vöruhönnuður og núverandi formaður Samtaka hönnuða – Form Ísland.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband